Ég hafði samband við heilsugæsuluna þar sem ég var farin að hafa áhyggjur af þessu mallaveseni hans Daníels. Hjúkkan sagði mér að þetta gætir verið komið í einhvern vítahring og að hann vantaði sennilega öll steinefni og að ég ætti að gefa honum einhvern ORKUDRYKK! Hún var að meina gatorade eða powerrade sem eru fljót að vinna upp vökvatap. Ég ræddi þetta fram og til baka við hana en hún sannfærði mig um að þetta væri allt í góðu og ég ætti líka að gefa honum LGG fyrir gerlana. Jæja, ég fylgdi þessum ráðum enda komin frá fagmanneskju og fór og verslaði þetta. Fór svo heim og hugsaði að það væri eins gott að þetta myndi virka. Það er ekki hægt að segja annað en að Daníel var hrifin af orkudrykknum en það var ekkert í líkingu við þegar hann prófaði LGG-ið! Guð, minn góður! Ég var fljót að átta mig að ég hafði opnað fyrir flóðgátt og Daníel var ekki síður hrifinn af umbúðunum en innihaldinu. Svo seinna um kvöldið er ég að taka til eftir kvöldmatinn og tek flöskuna og þá bara alveg tryllist Daníel og róast ekki fyrr en ég gef eftir og læt hann fá hana. Staðan í dag er sú að ég er búin að fela LGG-ið aftast í ískápnum og planið er að við Einar drekkum þetta þegar Daníel er farinn að sofa á kvöldin!
Annað sem er nýtt hjá okkur er það að ég er búin að skrifa undir starfsamning hjá Landsbankanum og er að fara að byrja að vinna núna á þriðjudaginn. Deildin sem ég er að fara að vinna í heitir varsla og viðskiptaumsjón og er staðsett í Hafnarstræti 7 og vinnutíminn er sveigjanlegur milli 8 og 18. Starf mitt mun felast í því að sjá um nokkra lífeyrissjóði sem eru í þjónustu hjá bankanum,bókhald og skýrsur og fleira spennandi. Þetta er vel launað og það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég kom út eftir að hafa verið búin að skrifa undir var: “Nú ætla ég að kaupa nýja kerru handa Daníel!” Þannig að ég skundaði niður í Smáralind og kom út með þessa fínu kerru. Hún verður notuð til að ferja Daníel yfir til dagmömmunnar á morgnana og svo sækir Einar hann um eftirmiðdaginn.
Þannig að við erum bara mjög hress og nú ætlum við að herða á róðrinum varðandi íbúðarmálin og ég held að við séum eiginlega búin að ákveða Fossvogin sem framtíðar aðsetur.
Jæja, þarf að fara að vekja Daníel. Við erum að fara í 8 mánaða skoðun og sprautu núna í hádeginu.
Jæja, ég gat nú bara ekki byrjað að taka til og gera allt fínt fyrir kvöldið fyrr en ég væri búin að skrifa nokkur orð hérna. Nú eru hátíðarnar að ganga í garð og þetta eru fyrstu jólin sem við litla fjölskyldan höldum heima hjá okkur og bjóðum öllum hingað. Þetta eru auðvitað fyrstu jólin hans Daníel yfir höfuð en hann virðist lítið kippa sér upp við allt þetta umstang. Svo sá hann jólatréð með ljósunum í fyrsta skipti núna í morgun og hann er voðalega hrifinn af því. Þetta verður víst í síðasta skipti í langann tíma sem ég get fengið að nota dýru, fínu og rosalega brothættu jólakúlurnar mínar 😀
Daníel á ansi mikið af leikföngum. Hann á allskonar tuskudýr, hringlur, dót til að naga, óróa, leikteppi o.fl. Ekkert af þessu kemst samt í hálfkvisti við það sem Daníel finnst vera BESTI OG STÓRKOSTLEGASTI HLUTUR Í HEIMINUM! Besti hlutur í heimi, sá sem allt dót fölnar í samanburði við, er frekar stór, hvít dolla með Nivea soft rakakremi. Þegar Daníel liggur á skiptiborðinu og lítur til hliðar og sér Nivea dolluna þá tekur hann andköf, spennist allur upp og starir á hana. En það er ekki nóg, hann vill líka fá hana til sín, til að halda á og naga og virða fyrir sér. Í fyrradag var hann frekar pirraður eitthvað á leikteppinu sínu, var svona á mörkunum að það þyrfti að fara að taka hann upp. En þá kom ég með Nivea dolluna, hélt henni fyrir ofan hann og sneri í hringi og þá var hann bara skælbrosandi og starði á dolluna góðu með glampa í augunum. Þetta er ekki einu sinni rakakrem sem við notum á Daníel þannig að það er ekki að honum finnist kremið gott, það er bara útlitið og lagið á dollunni sem er svona stórkostlegt! En þetta er fínt, gott að hann er svona ánægður. Í jólagjöf er ég að hugsa um að gefa honum tannkremstúpu, sjá hvort það verður ekki vinsælt líka.