Category Archives: Almennt

Orkudrykkir, vinna og ný kerra

Ég hafði samband við heilsugæsuluna þar sem ég var farin að hafa áhyggjur af þessu mallaveseni hans Daníels. Hjúkkan sagði mér að þetta gætir verið komið í einhvern vítahring og að hann vantaði sennilega öll steinefni og að ég ætti að gefa honum einhvern ORKUDRYKK! Hún var að meina gatorade eða powerrade sem eru fljót að vinna upp vökvatap. Ég ræddi þetta fram og til baka við hana en hún sannfærði mig um að þetta væri allt í góðu og ég ætti líka að gefa honum LGG fyrir gerlana. Jæja, ég fylgdi þessum ráðum enda komin frá fagmanneskju og fór og verslaði þetta. Fór svo heim og hugsaði að það væri eins gott að þetta myndi virka. Það er ekki hægt að segja annað en að Daníel var hrifin af orkudrykknum en það var ekkert í líkingu við þegar hann prófaði LGG-ið! Guð, minn góður! Ég var fljót að átta mig að ég hafði opnað fyrir flóðgátt og Daníel var ekki síður hrifinn af umbúðunum en innihaldinu. Svo seinna um kvöldið er ég að taka til eftir kvöldmatinn og tek flöskuna og þá bara alveg tryllist Daníel og róast ekki fyrr en ég gef eftir og læt hann fá hana. Staðan í dag er sú að ég er búin að fela LGG-ið aftast í ískápnum og planið er að við Einar drekkum þetta þegar Daníel er farinn að sofa á kvöldin!

Annað sem er nýtt hjá okkur er það að ég er búin að skrifa undir starfsamning hjá Landsbankanum og er að fara að byrja að vinna núna á þriðjudaginn. Deildin sem ég er að fara að vinna í heitir varsla og viðskiptaumsjón og er staðsett í Hafnarstræti 7 og vinnutíminn er sveigjanlegur milli 8 og 18. Starf mitt mun felast í því að sjá um nokkra lífeyrissjóði sem eru í þjónustu hjá bankanum,bókhald og skýrsur og fleira spennandi. Þetta er vel launað og það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég kom út eftir að hafa verið búin að skrifa undir var: “Nú ætla ég að kaupa nýja kerru handa Daníel!” Þannig að ég skundaði niður í Smáralind og kom út með þessa fínu kerru. Hún verður notuð til að ferja Daníel yfir til dagmömmunnar á morgnana og svo sækir Einar hann um eftirmiðdaginn.

Þannig að við erum bara mjög hress og nú ætlum við að herða á róðrinum varðandi íbúðarmálin og ég held að við séum eiginlega búin að ákveða Fossvogin sem framtíðar aðsetur.

Jæja, þarf að fara að vekja Daníel. Við erum að fara í 8 mánaða skoðun og sprautu núna í hádeginu.

Lítið að gerast

Lítið að gerast hjá okkur þessa dagana, Daníel er hjá dagmömmunni og ég er bara að stússast í atvinnuleit og ýmsu öðru sem til fellur. Við fórum í síðasta sundtímann í gær og er Daníel núna formlega útskrifaður sundkappi. Hann er alveg þrusuduglegur að kafa og er alveg óhræddur í vatninu og við erum líka orðin mjög örugg með hann í sundi. Ég mæli tvímælalaust með svona námskeiði en ég er ekki viss um hvort við förum á framhaldsnámskeiðið sem verður í maí. Við verðum bara að vera duglega að fara í sund núna í framhaldinu og ég er að spá í að setja bara fastann tíma í sund t.d. á laugardagsmorgnum (humm… eða í hádeginu). Það væri kannski bara gaman að fá alla krakkana saman (Ísold, Jökul, Jakob og Maríu) og gera þetta að rútínu tvisvar í mánuði eða eitthvað. Spáum í því.
Svo fórum við í gær að kaupa hókus-pókus stól til að hafa hjá ömmu og afa í Háaleitinu. Keyptum þennan fína notaða stól með auka sessu á 3500 kall. Okkur Einari finnst þetta mjög töff stóll og miklu skemmtilegri en þessi TrippTrapp stóll sem við erum með núna. Þetta eru auðvitað stólarnir sem voru aðalmálið þegar við vorum að alast upp, spurning hvor stóllinn fer uppí Háaleitið 🙂 .
Eitt að lokum. Í nótt svaf Daníel nánast heila nótt án þess að vakna frá 9-7!!! Þið sem eruð vön því að fá að sofa alltaf óáreitt gerið ykkur sennilega ekki grein fyrir því hverskonar lúxus þetta er fyrir okkur. Við vöknuðum semsagt öll í rosalega góðu skapi í morgun, útsofin og hress. Vonandi verður þetta svona áfram….en ég ætla ekki að treysta á það 😉 .

Sjúkdómsgreiningin

Þá eru veikindin liðin hjá. Daníel var hitalaus á laugardaginn en svo um kvöldið var greyið komið með útbrot á maganum, bringunni, höfðinu og bakinu. Þá ákváðum við að skjótast niður á læknavakt og láta athuga strákinn. Það tók á móti okkur mjög alvarlegur læknir og eftir stutta skoðun þá sagði hann: Þá vitum við hvað þetta er…. Ég auðvitað panikaði: HVAÐ ER AÐ HONUM???? Sjúkdómsgreiningin var Mislingabróðir sem er víst væg veirusýking, mjög algeng hjá börnum undir 1 árs. Þetta lýsir sér einmitt með smárokkandi hita í 3-4 daga og svo koma útbrotin í ljós og hverfa á ca. 12-24 tímum. Við vorum mjög ánægð að heyra þetta og viti menn strax í gær var strákurinn farinn að hressast og svaf alveg 3-4 tíma yfir daginn.

Ég hef vissan grun um það að Daníel hafi smitast af Jökli vini sínum en hann var einmitt búinn að vera með svona smá hita í nokkra daga. En þá eru þeir bara búnir með þetta, held að þetta komi bara einu sinni án þess að vita það. Ég væri ekki hissa ef við fengjum heyra allt um þessa veiru frá Agli afa sem er meinafræðingur á Landspítalanum 😉 .

Daníel er núna kominn aftur til Ingu dagmömmu og við vonum að þessi langa fjarvera hafi ekki alveg gert aðlögunina að engu.

Heimur móður hins veika barns

Jæja þá er 4 eða 5 dagurinn í veikindunum hans Daníels runninn upp og ég er orðin ansi þreytt en Daníel hressist við af og til og þá er það eins óg vítamínsprauta fyrir mig. Ég ætla að skrifa þennan pistil í punktaformi þar sem ég ræð varla við að hugsa heila hugsun til enda hvað þá að skrifa texta og tengja hann.

  • Daníel er gólandi og grenjandi til skiptis. Ég verð á köflum hálf ónæm fyrir látunum.
  • Skítastuðullinn hefur náð nýjum hæðum hérna á heimilinu þar sem að ég er ein allann daginn. Spurning um að hringja í “Allt í drasli mínus Heiðar krípí gæ”
  • Ég er farin að múta Daníel með því að láta hann fá eitthvað sem hann má ekki fá til þess að fá stundarfrið til að svelgjast ekki á matnum.
  • Óhreinatausfjallið inní þvottahúsi er farið að gefa mér illt auga. Hef ákveðið að sniðganga þvottahúsið.
  • Hef varla farið út úr húsi í marga daga, farin að vera hrædd um að sólarljósið breyti mér í stein.
  • Verð að hætta að tala við sjálfa mig.

Vonandi fer Daníel að batna bráðlega og ég næ að halda geðheilsunni. Mér verður oft hugsað til einstæðra mæðra og foreldra sem eiga fjölbura og langveik börn. Maður ætti bara að prísa sig sæla.

Byrjaður hjá dagmömmu

Við Daníel byrjuðum á mánudaginn hjá Ingu dagmömmu. Við byrjuðum bara rólega og erum bara búin að vera ca. 2 tíma á dag og ég hef skroppið aðeins frá til að leyfa þeim að vera einum. Í dag fór ég svo frá í tæpa 2 tíma og Daníel var bara alsæll allann tímann, ég er greinilega ekki eins ómissandi eins og ég vil halda! Þannig að á morgun er planið að fara hálf 9 og vera fram á hádegi. Svo vonandi verðu hann farinn að geta verið allann daginn í næstu viku kannski og þá ætla ég að fara í atvinnuleit.

Annars vorum við Sandra í dag að láta okkur dreyma um að geta farið út í göngutúr með vagninnn en það er ekki glæta meðan að snjóruðningstækni Reykjavíkurborgar er ekki betri en þetta. Hérna kemur dæmi: maður sér vel rudda gangsétt og fylgir henni en síðan af einhverjum ástæðum hefur snjóruðningsmaðurinn ákveðið að hætta að skafa snjóinn 3-4 metra og byrja svo aftur. Annað dæmi er að þegar komið er að götu eða gatnamótum þá er búið að ryðja snjónum af götunni uppá gangstéttina þannig að maður þarf að klífa yfir skaflana til að komast yfir. Getur einhver ímyndað sér hvernig það er að reyna að reyna að komast leiðar sinnar með barnavagn í þessari færð eða hvað þá með gamla fólkið??? Sem betur fer var Sandra með mér og saman HÉLDUM VIÐ Á VAGNINUM yfir verstu kaflana. Fáránlegt, verð fegin þegar snjórinn verður farinn.

Það eru endalausar framfarir hjá Daníel. Hann er farinn að sitja í lengri tíma að leika sér óstuddur og hann getur staðið með ef hann nær taki á einhverju. Svo er Daníel byrjaður að borða brauð með smjöri og kæfu í litlum bitum og fisk með kartöflum og gulrótum og ofan á er hann byrjaður að borða kjúkling og lamb. Næsta skref í matarmálunum er að prófa þorsk og brún hrísgrjón.

Dagmamma og bílstóll

Fékk þvílíkt sjokk í fyrradag þegar ein dagmamma hringdi, sem ég hafði haft samband við fyrir nokkrum mánuðum, og tilkynnti mér að það væri að losna pláss hjá henni núna um miðjan janúar! Ég sem var búin að plana að vera heima allavegan út febrúar 🙁 . Fyrst ætlðum við bara að segja nei en svo hugsuðum við okkur um og það er svo erfitt að fá pláss hjá dagmömmum nú til dags að við ákváðum að kíkja allavegana. Svo fórum við í gær og það tók á móti okkur þessi indæla eldri kona, hún Ingibjörg. Þetta var allt mjög snyrtilegt og Ingibjörg er mjög ákveðin og vill hafa reglu á hlutunum. Okkur leist bara mjög vel á þetta og Daníel fékk að sitja í kjöltunni á henni allann tímann meðan að við vorum að spjalla og líkaði bara mjög vel. Þannig að við erum búin að ákveða að Daníel byrjar í Dagvistun í nokkra tíma á dag um miðjan janúar til að venjast þessu (og ég líka) og svo verður hann allann daginn frá og með febrúar og þá byrja ég að vinna ef ég verð komin með vinnu þá 🙂 . Þetta er þvílík breyting að ég má vart hugsa til þess að sjá ekki Daníel í svona langann tíma… það munar minnstu að ég sakni hans eftir nóttina!

Annað nýtt hjá okkur er að við erum búin að fjárfesta í nýjum barnabílstól þar sem hinn var löngu orðinn alltof lítill. Skil ekki hvernig þessi gamli stóll á að endast fyrir börn uppí 10 kg þar sem Daníel þurfti að sitja pínu fram með axlirnar þegar hann var vel klæddur! Allavegana þá er þessi nýji stóll frá Britax og hann er fyrir 9-18 kg en við erum að svindla smá enda er ég búin að ákveða að fara meira eftir eigin innsæi en þessum endalausu stöðlum. Þegar ég held að hann sé tilbúinn þá er hann tilbúinn. Við erum ekki búin að prófa stólinn ennþá en hann snýr í aksturstefnu þannig að það verður auðveldara að fylgjast með stráknum og ég er viss um að hann mun kunna að meta útsýnið.
Annars er allt gott að frétta og Daníel hringsnýst hérna á gólfinu fyrir framan mig í þessum endalausu tilraunum til að komast af stað. Hann er enn ekki farinn að sitja sjálfur en þó orðinn sáttari við að sitja bara almennt en nú er hann líka farinn að standa í lappirnar án þess að kikna!

Fyrstu jólin

Þá erum við loksins búin að jafna okkur eftir jólin og ekki seinna að vænna að skrifa hérna og segja ykkur frá þeim. Við eyddum aðfangadagskvöldinu hérna heima ásamt foreldrum okkar beggja og ömmu hans Einars. Daníel var ekki sá hressasti framan af, enda hafði hann sofið illa um daginn, en þegar líða tók að háttatíma þá fór hann að hressast og var hrókur alls fagnaðar. Það var rosalega mikið af pökkum undir litla trénu okkar í ár og meiri hlutinn af þeim var stílaður á Daníel þannig að við vorum langt fram á nótt að taka upp gjafir! Á jóladag fórum við síðan til Tomma og Önnu Maríu í Jólafrukost og seinna um kvöldið í matarboð hjá Hrefnu og Agli. Á annan í jólum fórum við síðan til Magneu langömmu í jólakaffi og vorum þá líka alveg búin á því enda ekkert smá strit að fara með strákinn svona út um allt.

Allt í allt þá voru þetta fínustu fyrstu jól hjá okkur þó svo að veðrið hefði auðvitað mátt vera betra (eins og alltaf). Það var tekið fullt af myndum yfir hátíðarnar og þær eru komnar inn undir “jól”.

Gleðileg jól!

Jóla DaníelJæja, ég gat nú bara ekki byrjað að taka til og gera allt fínt fyrir kvöldið fyrr en ég væri búin að skrifa nokkur orð hérna. Nú eru hátíðarnar að ganga í garð og þetta eru fyrstu jólin sem við litla fjölskyldan höldum heima hjá okkur og bjóðum öllum hingað. Þetta eru auðvitað fyrstu jólin hans Daníel yfir höfuð en hann virðist lítið kippa sér upp við allt þetta umstang. Svo sá hann jólatréð með ljósunum í fyrsta skipti núna í morgun og hann er voðalega hrifinn af því. Þetta verður víst í síðasta skipti í langann tíma sem ég get fengið að nota dýru, fínu og rosalega brothættu jólakúlurnar mínar 😀

Við litla fjölskyldan óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þökkum fyrir að lesa og fylgjast með okkur á árinu.

Besti hlutur í heimi!

Nivea dollanDaníel á ansi mikið af leikföngum. Hann á allskonar tuskudýr, hringlur, dót til að naga, óróa, leikteppi o.fl. Ekkert af þessu kemst samt í hálfkvisti við það sem Daníel finnst vera BESTI OG STÓRKOSTLEGASTI HLUTUR Í HEIMINUM! Besti hlutur í heimi, sá sem allt dót fölnar í samanburði við, er frekar stór, hvít dolla með Nivea soft rakakremi. Þegar Daníel liggur á skiptiborðinu og lítur til hliðar og sér Nivea dolluna þá tekur hann andköf, spennist allur upp og starir á hana. En það er ekki nóg, hann vill líka fá hana til sín, til að halda á og naga og virða fyrir sér. Í fyrradag var hann frekar pirraður eitthvað á leikteppinu sínu, var svona á mörkunum að það þyrfti að fara að taka hann upp. En þá kom ég með Nivea dolluna, hélt henni fyrir ofan hann og sneri í hringi og þá var hann bara skælbrosandi og starði á dolluna góðu með glampa í augunum. Þetta er ekki einu sinni rakakrem sem við notum á Daníel þannig að það er ekki að honum finnist kremið gott, það er bara útlitið og lagið á dollunni sem er svona stórkostlegt! En þetta er fínt, gott að hann er svona ánægður. Í jólagjöf er ég að hugsa um að gefa honum tannkremstúpu, sjá hvort það verður ekki vinsælt líka.