Ef mér finnst það flott, þá á ég það
Ef ég held á því, þá á ég það
Ef ég næ því frá þér, þá á ég það
Ef ég var með það rétt áðan, þá á ég það
Ef ég á það, má það á engan hátt líta út fyrir að vera þitt
Ef ég er að byggja eitthvað, þá á ég alla kubbana
EF það líkist dótinu mínu, þá á ég það
Þetta er mjög lýsandi fyrir Daníel þessa dagana þegar hann á samskipti við önnur börn. Hann getur á engann hátt komist hjá árekstrum af þessu tagi, meira að segja þegar hann er gestur hjá öðrum! Mér var hins vegar sagt í foreldraviðtalinu að vera ekkert að hafa áhyggjur að hann hann myndi verða að einhverjum eigingjörnum nýskupúka ( eins og ég greinileg ímyndaði mér), þetta er bara aldurinn. Ég er nú ekkert að stressa mig á þessu heldur á ég meira í erfiðleikum með að skella ekki uppúr við svona aðstæður því að horfa á alvarlega svipinn á honum þegar hann er að rífast um eitthvað dót sem hann hefur ekki snert í marga mánuði en sem er núna greinilega miðpunktur alheimsins er meira en lítið spaugilegt!
Það er fátt annað sem kemst að þessa dagana en Bubbi byggir. Það eru sama hvort það eru bækurnar eða teiknimyndirnar, allt er þetta jafn skemmtilegt!
Við fórum í IKEA í gær og keyptum nýtt rúm handa Daníel. Rúmið er svaka flott, 80×200 á stærð, en það er hægt að stytta það með því að láta báða endana upp (eins og sést á myndinni) og þá er það 80×152. Daníel var rosaspenntur fyrir þessu þegar við vorum að setja það saman og fór svo að klifra uppí það á fullu. Eina áhyggjuefnið er að hann var mjög spenntur fyrir því að standa í því, og láta sig hrynja niður og munaði minnstu að hann dytti beint niður á gólf. Við settum nýja rúmið inn til hans en létum hann samt sofa í gamla í nótt því hann var ekki alveg að vilja leggjast niður í þessu nýja og við vildum líka leyfa honum að venjast því bara í rólegheitum.