Monthly Archives: April 2006

Öskur og tunga!

Margt nýtt að gerast hjá peyjanum eins og við má búast. Núna, eftir að hafa nokkrum sinnum bitið hana til blóðs, er Daníel búinn að uppgötva í sér tunguna! Jebb, það er eitthvað þarna fyrir neðan nefið sem hann sér varla en er mjög næmt og skemmtilegt. Hann er semsagt búinn að eyða góðum tíma í að ulla, koma við hana og toga í þennan merkilega hlut undanfarið. Annað skemmtilegt er að Daníel er farinn að nota röddina sína óspart og hún er ekki lengur svo lítil og sæt. Af engri sérstakri ástæðu byrjar hann að öskra: DADADADA!!!!!!! JAAAAJAAAAAJAAAJAAAAA! Og þetta er ekkert smá hátt. Hann lætur líka heyra í sér ef hann er búnn með brauðið eða öll leikföngin eru dottin á gólfið. Ég bíð spennt eftir að flyta í fjölbýlishúsið þar sem nágrannarnir fá að njóta látanna með okkur 🙂

Daníel fékk nýtt leikfang í gær frá Ársæli afa. Það var hvorki meira né minna en stór slökkviliðs-sparkbíll! Þetta vakti mikla gleði og forvitni hjá litla mannin þó hann sé ennþá aðeins og lítill til að sitja á honum einn og óstuddur. Það sem er líka mjöööööög vinsælt hjá Daníel er svona þræða víra-kubba dót eins og er oft á læknastofum. Ég keypti þetta þegar ég var í DK og það er búið að skapa mikla lukku. Annars er Daníel ekkert sérstaklega vandlátur á leikföng.Til að mynda er svitalyktaeyðirinn minn ekkert minna spennandi en þessir svaka þroskaleikföng. Svo þegar hann er komin með leið á honum þá skellir maður bara litríkri hárteygju á hann og þá heldur gleðin áfram. Hver man svo ekki eftir Nivea-dollunni vinsælu? Og svo er það auðvitað greiðan, meikdollan mín og þvottapokinn…. er einhver að sjá munstur í þessu? Já þetta eru allt hlutir úr baðherberginu þar sem að Daníel er oft sprikklandi eins og lítill fiskur á skiptiborðinu og við verðum að hafa ofan af fyrir honum til að ná að skipta um bleyju eða smeygja honum í föt!

Göngutæknin er líka öll að koma til en það fyndnasta er þegar hann vill setjast niður þá ,,,,,,,,,þ.æ(Daníel að skrifa)nnnnnnnnnnnnnnn já eins og ég sagði þá er fyndnast þegar hann vill setjast niður þá sperrir hann bossann útí loftið og POMMP lætur sig detta beint niður! Þetta finnst mér mjög sniðug tækni. Svo er hann farinn að fara á mill hluta t.d. stóla bara alveg eins og Tarzan!

Við erum svo að fara að fá nýju íbúðin í Svarthömrunum afhenta á sunnudaginn í næstu viku. Reikna með að vera síma og netsambandslaus allavegana viku eftir það þannig að ég ætla að reyna að skella inn myndum núna bráðulega áður en við flytjum. Þá fær Daníel líka sér herbergi…. spennó!

Komin frá Danmörku

Þá er maður loksins komin heim aftur og mikið svakalega er það gott að geta knúsað Daníel og auðvitað Einar líka aftur. Það er alveg hræðilegt að fara frá í miðjum þroskakipp eins og ég gerði. Daníel er bara allt annar strákur. Hann er orðinn svo svakalega duglegur að labba með fram öllu og alltaf að uppgötva eitthvað nýtt til að leika sér með, okkur til mikillar gleði (einmitt!). Mér finnst eins og ég hafi verið í burtu í heilann mánuð!

Nú er Daníel líka farinn að sofa alla nóttina (7,9,13) en hins vegar farinn að vakna alltaf kl.6 og stendur og gólar. Ég get nú ekki sagt annað en að ég hlakka til að flytja í nýju íbúðina þar sem Daníel verður settur í sérherbergi. Þá kannski fáum við foreldrarnir að sofa aðeins lengur í það minnsta 🙂

Heilsugæsla

Ég fór með Daníel á heilsugæsluna í fyrradag til að athuga með gröftinn sem var að koma í augun á honum. Það var svipað og var þegar hann var veikur um daginn, læknirinn sagði að það væri sennilega aftur smá sýking og gaf honum lyf fyrir því og líka nýtt sterakrem fyrir útbrotin sem hann er með. Fór svo í gær í 10 mánaða skoðun, Daníel var akkúrat á lengdarkúrfunni en aðeins undir meðalþyngd. Annars gekk það allt bara vel.

Það sem er mest fjör núna er hinsvegar að standa upp við stóla, borð og í rúminu. Um leið og maður lætur Daníel á gólfið þá rýkur hann beint á næsta borð eða stól og fer að standa upp. Þetta tekst í svona 80% tilfella en í hinum 20% tilfella þá annaðhvort tekst honum ekki að standa upp eða hann skellur með hausinn utaní borðið eða gólfið. Hann verður örugglega kominn með fullt af kúlum á hausinn fljótlega. Þó hann meiði sig aðeins þegar hann dettur þá þarf bara að hugga hann í nokkrar sekúndur, svo rýkur hann aftur á borðið og fer að reyna að standa upp aftur. Þetta veldur því líka að það má ekki líta af honum eina sekúndu þegar hann er á gólfinu sem er mjög hressandi…

Naflaslit

Fórum til skurðlæknisins í fyrradag og hann var sammála okkur um að naflaslitið væri mikið en hann vildi samt ekkert gera í þessu eins og er. Læknirinn sagði að það væri mjög, mjög sjaldgæft að garninir klemmdust á milli og þetta mætti bíða þar til hann væri 4-5 ára en samt bara fylgjast með þessu. Ég var fegin að vera bara búin að fá botn í málið og álit sérfræðings. Annars er bara lítið að frétta nema að ég er að fara frá strákunum á föstudaginn og til Danmerkur að heimsækja Láru mína. Það verður erfitt að slíta sig frá þeim en ég held að maður hafi bara gott af smá húsmæðraorlofi 🙂

Undur og stórmerki!!!

Undur og stórmerki eru að gerast! Daníel er farinn að sofa heilar nætur! Við bíðum með öndina í hálsinum og vonum að þetta sé til frambúðar. Á miðvikudaginn erum við að fara með Daníel til barnaskurðlæknis og láta meta naflaslitið. Vonandi verður hægt að gera eitthvað í því sem fyrst, en hvort sem verður þá verðum við rólegri eftir að hafa talað við sérfræðing. Nýjar myndir frá því í mars eru komnar á myndasíðuna.