Fékk þvílíkt sjokk í fyrradag þegar ein dagmamma hringdi, sem ég hafði haft samband við fyrir nokkrum mánuðum, og tilkynnti mér að það væri að losna pláss hjá henni núna um miðjan janúar! Ég sem var búin að plana að vera heima allavegan út febrúar 🙁 . Fyrst ætlðum við bara að segja nei en svo hugsuðum við okkur um og það er svo erfitt að fá pláss hjá dagmömmum nú til dags að við ákváðum að kíkja allavegana. Svo fórum við í gær og það tók á móti okkur þessi indæla eldri kona, hún Ingibjörg. Þetta var allt mjög snyrtilegt og Ingibjörg er mjög ákveðin og vill hafa reglu á hlutunum. Okkur leist bara mjög vel á þetta og Daníel fékk að sitja í kjöltunni á henni allann tímann meðan að við vorum að spjalla og líkaði bara mjög vel. Þannig að við erum búin að ákveða að Daníel byrjar í Dagvistun í nokkra tíma á dag um miðjan janúar til að venjast þessu (og ég líka) og svo verður hann allann daginn frá og með febrúar og þá byrja ég að vinna ef ég verð komin með vinnu þá 🙂 . Þetta er þvílík breyting að ég má vart hugsa til þess að sjá ekki Daníel í svona langann tíma… það munar minnstu að ég sakni hans eftir nóttina!
Annað nýtt hjá okkur er að við erum búin að fjárfesta í nýjum barnabílstól þar sem hinn var löngu orðinn alltof lítill. Skil ekki hvernig þessi gamli stóll á að endast fyrir börn uppí 10 kg þar sem Daníel þurfti að sitja pínu fram með axlirnar þegar hann var vel klæddur! Allavegana þá er þessi nýji stóll frá Britax og hann er fyrir 9-18 kg en við erum að svindla smá enda er ég búin að ákveða að fara meira eftir eigin innsæi en þessum endalausu stöðlum. Þegar ég held að hann sé tilbúinn þá er hann tilbúinn. Við erum ekki búin að prófa stólinn ennþá en hann snýr í aksturstefnu þannig að það verður auðveldara að fylgjast með stráknum og ég er viss um að hann mun kunna að meta útsýnið.
Annars er allt gott að frétta og Daníel hringsnýst hérna á gólfinu fyrir framan mig í þessum endalausu tilraunum til að komast af stað. Hann er enn ekki farinn að sitja sjálfur en þó orðinn sáttari við að sitja bara almennt en nú er hann líka farinn að standa í lappirnar án þess að kikna!
Jæja, ég gat nú bara ekki byrjað að taka til og gera allt fínt fyrir kvöldið fyrr en ég væri búin að skrifa nokkur orð hérna. Nú eru hátíðarnar að ganga í garð og þetta eru fyrstu jólin sem við litla fjölskyldan höldum heima hjá okkur og bjóðum öllum hingað. Þetta eru auðvitað fyrstu jólin hans Daníel yfir höfuð en hann virðist lítið kippa sér upp við allt þetta umstang. Svo sá hann jólatréð með ljósunum í fyrsta skipti núna í morgun og hann er voðalega hrifinn af því. Þetta verður víst í síðasta skipti í langann tíma sem ég get fengið að nota dýru, fínu og rosalega brothættu jólakúlurnar mínar 😀
Daníel á ansi mikið af leikföngum. Hann á allskonar tuskudýr, hringlur, dót til að naga, óróa, leikteppi o.fl. Ekkert af þessu kemst samt í hálfkvisti við það sem Daníel finnst vera BESTI OG STÓRKOSTLEGASTI HLUTUR Í HEIMINUM! Besti hlutur í heimi, sá sem allt dót fölnar í samanburði við, er frekar stór, hvít dolla með Nivea soft rakakremi. Þegar Daníel liggur á skiptiborðinu og lítur til hliðar og sér Nivea dolluna þá tekur hann andköf, spennist allur upp og starir á hana. En það er ekki nóg, hann vill líka fá hana til sín, til að halda á og naga og virða fyrir sér. Í fyrradag var hann frekar pirraður eitthvað á leikteppinu sínu, var svona á mörkunum að það þyrfti að fara að taka hann upp. En þá kom ég með Nivea dolluna, hélt henni fyrir ofan hann og sneri í hringi og þá var hann bara skælbrosandi og starði á dolluna góðu með glampa í augunum. Þetta er ekki einu sinni rakakrem sem við notum á Daníel þannig að það er ekki að honum finnist kremið gott, það er bara útlitið og lagið á dollunni sem er svona stórkostlegt! En þetta er fínt, gott að hann er svona ánægður. Í jólagjöf er ég að hugsa um að gefa honum tannkremstúpu, sjá hvort það verður ekki vinsælt líka.
Daníel er búinn að vera ansi pirraður síðustu daga, búinn að gráta frekar mikið og vera órólegur. Við vorum ekki viss hvort hann væri að taka tennur eða hvort honum væri illt í eyrunum eða hvað, en grunaði helst að það væru tennur því hann nagaði gjörsamlega allt sem hann kom nálægt. Svo í gærmorgun var Karen að skoða góminn á honum og þá sá hún glitta í tennur í neðri gómnum! Ekki bara eina heldur tvær framtennur! Í gærkvöldi gat maður svo greinilega fundið fyrir tönnunum þegar Daníel beit í puttann á manni. Við keyptum deyfigel fyrir góminn svo hann fyndi ekki jafn mikið til en þegar við reyndum að setja það á góminn sleikti Daníel það strax af og kjamsaði á því af bestu lyst, enda er gelið með svakalegu lakkrísbragði. Það er greinilegt að Daníel ætlar að taka forskot á sæluna og borða jólasteikina með okkur!