Kúkur og piss!

“Mommy, I´ve got a present for you. I´ll give you a hint: it´s in my diaper and it´s not a toaster!”

Kúkableyja í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið. Er núna búinn að skipta á u.þ.b. 5000 bleyjum þannig að er orðinn nokkuð sleipur í þessu. Allt gengur annars vel, fullt af fólki búið að koma í heimsókn, öllum líst mjög vel á strákinn. A.m.k. 5 manns búnir að segja að hann sé mjög “mannalegur”, hvað sem það nú þýðir. Eru ekki öll börn mannaleg? Ég efast a.m.k. um að fólk sé mikið að líkja þeim við aðrar dýrategundir (“Til hamingju með strákinn, hann er svakalega líkur hesti!”).

En aftur að kúkamálunum. Drengurinn er engan veginn ánægður þegar á að skipta á honum og öskrar úr sér lungun en jafnar sig um leið og hann er kominn í nýja bleyju. Hann er líka búinn að koma sér upp mjög öflugri leið við að pissa. Hún gengur útá að kúka fyrst, svo þegar hann er kominn á skiptiborðið og úr bleyjunni þá lætur hann rigna gulu yfir foreldra sína, skiptiborðið og allt annað í tveggja metra radíus. Sérstaklega er hann góður í að gera þetta rétt eftir að maður snýr sér frá þannig að hann nái sem bestri pissdreifingu áður en maður tekur eftir þessu og getur stokkið á hann með aðra bleyju. En hann er duglegur að drekka, og yfirleitt voða vær þannig að við erum bara mjög ánægð 🙂 .